Foreldrafélag Vesturbæjarskóla

Foreldrafélög eru lögbundin félagasamtök/samtök foreldra sem hafa það hlutverk að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl foreldra, bæði innbyrðis og við skólann.  Hlutverk samtakanna er jafnframt að skapa vettvang fyrir samstarf og samstöðu meðal foreldra. Góð samskipti foreldra auðvelda samráð og samstöðu í uppeldinu. Stjórn foreldrafélags er kosin á aðalfundi að vori. Stjórnin mótar stefnu og áherslur í starfi í samráði við skólastjórnendur, bekkjarfulltrúa og nemendaráð. Markmið starfsins er að stuðla að vellíðan nemenda og bættum námsárangri með því að auka samskipti foreldra og styrkja skólabraginn. 

Stjórn foreldrafélagsins og bekkjarfulltrúar

Stjórn foreldrafélagsins sér til þess að verkefnum sé skipt milli foreldra þannig að sem flestir taki þátt í undirbúningi og framkvæmd a.m.k. eins verkefnis yfir veturinn. Einn mikilvægasti hluti starfs foreldrafélaganna er uppbygging bekkjarstarfsins en það er einn besti samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra í uppeldinu.  Í þessu starfi gegna bekkjarfulltrúar afar mikilvægu hlutverki.  

Markmið bekkjarfulltrúastarfsins er að stuðla að samstarfi og samskiptum barna, foreldra og kennara. Æskilegt er að bekkjarfulltrúarnir, kosnir af foreldrum, séu tveir í hverjum bekk/hóp. Þeir gegna hlutverki verkstjóra sem hafa jákvæða hvatningu að leiðarljósi. Þeir halda utan um dagskrá sem er ákveðin á sameiginlegum fundi foreldra í bekknum að undangenginni athugun á viðhorfum og óskum barnanna. Bekkjarfulltrúar eru jafnframt tengiliðir bekkjarins við foreldrafélag og foreldraráð skóla. Hugmyndir að viðburðum á vegum bekkjarfulltrúa eru t.d. hjólatúrar, bingó, spilakvöld, leikjakvöld, skautaferð, leikhús, sund, keila, skíðaferð, gönguferð, bekkjarkvöld í skólanum. 

Samskipti foreldra

Foreldrasamstarf er mikilvægur hluti af uppeldi og skólagöngu barna okkar. Rannsóknir hafa sýnt fram á forvarnargildi samstíga foreldrahóps auk þess sem foreldrar gegna mikilvægu hlutverki að styðja við og stuðla að góðri menningu innan barnahópsins. Þá er ómetanlegur stuðningur fyrir foreldra að hafa breitt tengslanet í öðrum foreldrum í nærsamfélaginu, þeir taka upplýstari ákvarðanir og geta verið öflug rödd umbóta. Þannig geta þeir unnið gegn einelti og fordómum og stuðlað að auknum skilningi og umburðarlyndi milli fjölbreyttra hópa. Foreldrastarfið gefur foreldrum einnig tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á vináttu barna og í leiðinni auðga eigið félagslíf. 

Vinahópar

Vinahópar ganga út á það að bekkjarsystkin kynnist hvert öðru og að öll í bekknum séu vinir. Bekkjarfulltrúar sjá til þess að verkefnið fari af stað með því að hafa samband við kennara. Bekknum er skipt í 4-5 barna hópa sem hittast einu sinni í mánuði heima hjá hverju barni um sig. Þegar öll börn hafa haldið vinahóp þá býr kennari bekkjarins til nýja hópa og svo koll af kolli. Foreldrar barna sem halda vinahóp heima hjá sér er ætla að stuðla að jákvæðri og góðri samveru barnanna í hópnum.

hundur sem heldur á merki borgarinnar

Vinafjölskyldur

Vinafjölskyldur efla tengsl og stuðla að auknu jafnræði meðal barna í Vesturbæjarskóla. Með vináttu og virðingu að leiðarljósi styðja fjölskyldur, sem þekkja skólasamfélagið, við fjölskyldur nýrra barna í skólanum. Markmið vinafjölskyldna er að öll börn hafi tækifæri til að taka þátt í skólasamfélaginu og njóti stuðnings fjölskyldu sinnar. Áhersla er lögð á móttöku fjölskyldna af erlendum uppruna, en verkefnið takmarkast þó ekki við þann hóp. Vinafjölskyldur styðja við markmið Réttindaskóla UNICEF. Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Í Réttindaskólum læra börn um mannréttindi sín og er réttindum þeirra fylgt eftir í skipulagi skólans, m.a. í samskiptum barna, kennara, starfsfólks, foreldra og frístundaleiðbeinenda. 

 

Þær Sesselja Th. Ólafsdóttir, Margrét Gylfadóttir og Maria Helena Sarabia hleyptu Vinafjölskylduverkefninu af stokkunum árið 2008

krakkar