Nám og kennsla

Grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna eftir aðalnámsskrá grunnskóla með Menntastefnu Reykjavíkurborgar til hliðsjónar. Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.
Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.
Skólanámskrá
Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs.
Leiðsagnarnám
Í Vesturbæjarskóla er leiðsagnarnám þar sem börnin velta reglulega fyrir sér náminu með kennurum til að nálgast eigin markmið og ákveða hvert skuli stefna. Leiðsagnarnám er námsmenning þar sem lögð er áhersla á vaxtarhugarfar, sjálfseflingu og námsvitund.

Leiðsagnarnám
Leiðsagnarnám snýst um að veita nemendum leiðsögn sem hjálpar þeim að ná markmiðum sem þeir stefna að. Markmiðin verða að vera vel skilgreind svo nemandinn, kennarinn og aðrir sem að náminu koma hafi sama skilning á því hvað sé til marks um að markmiðum sé náð. Áhersla er lögð á vaxtarhugarfar (e. growth mindset) þar sem trú er á að nemandi geti þróað hæfileika sína og hæfni með fjölbreyttum aðferðum. Nám er ferli þar sem eðlilegt er að gera mistök og alltaf er hægt að bæta sig.
Námsmat
Leiðsagnarmat í leiðsagnarnámi er námsmat sem hefur þann megintilgang að veita nemendum endurgjöf með það að markmiði að bæta árangur. Námsmatsaðferðir eru fjölbreyttar og markvisst er fylgst með framförum allra barna með leiðsagnarmati sem byggist á markmiðum og viðmiðum um árangur. Námsmat á að vera leiðbeinandi og hvetjandi fyrir barnið og upplýsandi fyrir foreldra.
Mentor
Mentor er upplýsingakerfi fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans. Foreldrar fá aðgangsorð í Mentor en notendanafn er kennitala foreldra og á innskráningarsíðu er hægt að nálgast lykilorð. Á Mentor er hægt að nálgast námsmat, bekkjalista og símanúmer foreldra bekkjafélaga og fá upplýsingar um stundvísi nemenda. Einnig skrá foreldrar þar óskir um fundartíma á samráðsdögum. Foreldrar eru hvattir til að sækja Mentor appið.

Skólasókn
Mikil áhersla er lögð á stundvísi nemenda í skólanum. Öll börn og ungmenni á aldrinum 6 til 16 ára eru skólaskyld og bera foreldrar/forsjáraðilar ábyrgð á því að börnin innritist í grunnskóla, sæki skólann og stundi þar nám.
Ef misbrestur verður á skólasókn ber foreldrum/forsjáraðilum og skólanum að bregðast við. Til þess að þau viðbrögð verði sem árangursríkust hafa grunnskólarnir í Reykjavík sett sér samræmd viðmið og reglur sem þeir vinna eftir.
