Námsmat í Vesturbæjarskóla

Í skólanum eru notaðar fjölbreyttar leiðir í námsmati. Kennarar meta og leiðbeina börnum um námið og hvernig þau geta náð markmiðum jafnt og þétt yfir skólaárið. Námsmat fer fram í leiðsagnarnámi og nemendur meta eigin vinnu og annarra með sjálfsmati og jafningjamati. Námsmat á að vera leiðbeinandi og hvetjandi fyrir barnið og upplýsandi fyrir foreldra. 

Leiðsagnarnám

Leiðsagnarnám snýst um að veita nemendum leiðsögn sem hjálpar þeim að ná markmiðum sem þeir stefna að. Markmiðin verða að vera vel skilgreind svo nemandinn, kennarinn og aðrir sem að náminu koma hafi sama skilning á því hvað sé til marks um að markmiðum sé náð. 

Skráning námsmats

  • Kennarar meta jafnt og þétt yfir skólaárið og skrá hjá sér hvernig nemandi hefur staðið sig. 
  • Þessi skráning á sér ýmist stað við yfirferð á könnunum, athugun á vettvangi, við skoðun á verkefnum nemenda eða samtali. 
  • Nemendur meta einnig eigin vinnu og annarra með sjálfsmati og jafningjamati miðað við þroska og eðli verkefna. 

Fjölbreytt námsmat

Samræður, hópavinna, hugtakakort, viðtöl, dagbækur, KVL skráning, markmiðasetning, sjálfsmat, jafningjamat, upprifjunarspjald, kynningar, námsmöppur, kannanir, skapandi skil, sýnishorn, munnleg verkefni, gátlistar.

Endurgjöf, markmið og viðmið

Nemandi fær upplýsingar um stöðu hans í náminu borið saman við námsmarkmið og skilgreind viðmið. Endurgjöfin hefur enga þýðingu fyrr en nemandinn nýtir sér hana og á því alltaf að fá tækifæri til að gera betur. Forsenda þess að endurgjöf skili nemendum árangri er að námsmarkmið séu skýr og að búið sé að skilgreina viðmið um árangur. Viðmiðin segja nemandanum hvenær hann hefur ná markmiðinu. Þannig skapa námsmarkmið, verkefni, viðmið og endurgjöf eina heild.

Hæfnikort nemenda

Námsmat er skráð í Mentor og geta foreldrar fylgst þar með námsframvindu barnsins síns yfir allt skólaárið. 

Hæfnikortin í Mentor innihalda hæfniviðmið fyrir hverja námsgrein í 1. - 4. bekk og 5. - 7. bekk. 

Hæfniviðmið Aðalnámskrár eru lýsing á hæfni sem nemendur eiga að stefna að. Hæfnikortin í Mentor innihalda þessi hæfniviðmið fyrir hverja námsgrein og hvern árgang.

Teikning af verkefnalista, klukku, reiknivél og talblöðru.

Matskvarðar

Matskvarðar eru ýmist settir fram með táknum, tölum eða bókstöfum og eru notaðir til að sýna hversu vel nemendur hafa náð ákveðinni þekkingu, leikni, skilningi og færni:  

Framúrskarandi þýðir að nemandi hefur náð hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í námskrá auk þess sem hann kemur með sínar eigin hugmyndir, sjónarmið og stíl í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann þekkir efnið mjög vel og getur miðlað því áfram.

Hæfni náð þýðir að nemandi hefur náð þeim hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í námskrá hverju sinni. 

Á góðri leið þýðir að nemandi hefur náð að stórum hluta þeim hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í námskrá hverju sinni. 

Þarfnast þjálfunar þýðir að nemandi hefur ekki fyllilega náð hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í námskrá og þarfnast þjálfunar. 

Mikilvægir þættir

Mikilvægir þættir eiga sér langa sögu í Vesturbæjarskóla og lýsa lykilhæfni Aðalnámskrár. Mikilvægir þættir eru metnir í tengslum við hvaða námsgrein eða þema sem er yfir allt skólaárið.

Í lok skólaárs fá nemendur afhenta mikilvæga þætti og umsögn frá kennurum. 

Teikning af konu og dreng að gróðursetja plöntu.

Sýnishornamöppur nemenda

Börnin vinna tvisvar til þrisvar á ári svokölluð sýnishorn sem kennarar nota sér til aðstoðar við námsmat. 

Í sýnishornamöppuna fara sýnishorn af vinnu barnanna eins og af sögugerðar- og skriftarsýnishornum og öðrum verkefnum sem gaman er að eiga. Einnig gera börnin sjálfsmynd í upphafi og lok skólaárs sem fer í möppuna.

Þegar nemendur hætta í skólanum fá þeir möppuna afhenta á útskriftarhátíð 7. bekkjar.