Námsmat í Vesturbæjarskóla
Lögð er áherslu á leiðsagnarmat og það fléttað saman við kennslu og nám. Leiðsagnarmat hefur þann megintilgang að veita nemendum endurgjöf og leiðsögn á uppbyggjandi hátt jafnt og þétt í námsferlinu og jafnframt veita foreldrum upplýsingar um stöðu barna sinna hverju sinni. Markmiðið er að nemendur viti hvar þeir eru staddir í námsferlinu og hvert þeir eru að fara og fái leiðsögn sem hjálpi þeim að brúa bilið þar á milli.
Með leiðsagnarmati fá bæði kennarar og nemendur reglulegar upplýsingar um framvindu náms og hvort kennslan hafi skilað árangri. Öllu máli skiptir að upplýsingarnar séu nýttar til að bæta nám og kennslu svo nemendur nái því sem að er stefnt.
Tilgangur námsmats
Megintilgangur námsmats er að safna upplýsingum um námslega stöðu nemenda. Þannig fæst staðfesting á hvort nemendur hafi tileinkað sér þá þekkingu, leikni og hæfni sem felst í þeim markmiðum sem unnið er að hverju sinni. Með námsmati fást upplýsingar um námslega stöðu nemenda á þeim tímapunkti sem þeirra er aflað. Þegar upplýsingar úr námsmati eru nýttar með markvissum hætti er meðal annars unnt að styrkja kennslu og kennsluaðferðir til að efla námsárangur nemenda og efla samstarf og samskipti heimila og skóla.

Fjölbreytt námsmat
Námsmatsaðferðir eru fjölbreyttar og markvisst er fylgst með framförum allra barna með leiðsagnarmati sem byggist á markmiðum og viðmiðum um árangur. Dæmi um námsmatsaðferðir eru samræður, hópavinna, hugtakakort, viðtöl, dagbækur, KVL skráning, markmiðasetning, sjálfsmat, jafningjamat, upprifjunarspjald, kynningar, námsmöppur, kannanir, skapandi skil, sýnishorn, munnleg verkefni og gátlistar.
Endurgjöf, markmið og viðmið
Nemandi fær upplýsingar um stöðu hans í náminu borið saman við námsmarkmið og skilgreind viðmið. Endurgjöfin hefur enga þýðingu fyrr en nemandinn nýtir sér hana og á því alltaf að fá tækifæri til að gera betur. Forsenda þess að endurgjöf skili nemendum árangri er að námsmarkmið séu skýr og að búið sé að skilgreina viðmið um árangur. Viðmiðin segja nemandanum hvenær hann hefur ná markmiðinu. Þannig skapa námsmarkmið, verkefni, viðmið og endurgjöf eina heild. Mikilvægt er að hafa í huga að verkefnin sjálf eru aldrei markmið heldur verkfæri sem hjálpa nemendum til að ná markmiðum og hæfni.
Hæfnikort nemenda
Hæfniviðmið Aðalnámskrár eru lýsing á hæfni sem nemendur eiga að stefna að. Hluti námsmats er skráð í Hæfnikort nemenda á Mentor. Skilgreind hafa verið forgangshæfniviðmið sem metin eru í hverjum árgangi og jafnvel oft yfir skólaárið til að fylgjast með framvindu. Foreldrar geta skoðað námsmat og fylgst með framvindu á Mentor.

Matskvarðar
Matskvarðarnir eru settir fram með táknum til að sýna hversu vel nemendur hafa náð ákveðinni þekkingu, leikni, skilningi og færni.
Framúrskarandi: Nemandi sýnir dýpt í skilningi og beitir þekkingu sinni á fjölbreyttan og skapandi hátt. Hann vinnur af nákvæmni, sjálfstæði og sýnir frumkvæði. Nemandinn hefur náð öllum markmiðum og fer jafnvel fram úr þeim.
Hæfni náð: Nemandi hefur náð þeim markmiðum og hæfni sem lögð er áhersla á. Verkefni og frammistaða sýna að hann skilur viðfangsefnið og getur beitt þekkingu og leikni í samræmi við aldur og viðmið.
Á góðri leið: Nemandi er að byggja upp skilning og færni. Enn vantar öryggi eða dýpt í þekkingu. Hann er að vinna í átt að markmiðunum og með áframhaldandi þjálfun og stuðningi er hann líklegur til að ná hæfninni.
Þarfnast þjálfunar: Nemandi hefur ekki enn náð nægilegum skilningi eða færni í viðfangsefni og á í erfiðleikum með að beita því sem hann hefur lært. Hann þarf meiri tíma, æfingu og markvissan stuðning til að þróa með sér viðeigandi hæfni.
Mikilvægir þættir
Mikilvægir þættir eiga sér langa sögu í Vesturbæjarskóla og lýsa lykilhæfni Aðalnámskrár. Mikilvægir þættir eru metnir í tengslum við hvaða námsgrein eða þema sem er yfir allt skólaárið.
Í lok skólaárs fá nemendur afhenta mikilvæga þætti og umsögn frá kennurum.

Sýnishornamöppur nemenda
Börnin vinna tvisvar til þrisvar á ári svokölluð sýnishorn sem kennarar nota sér til aðstoðar við námsmat.
Í sýnishornamöppuna fara sýnishorn af vinnu barnanna eins og af sögugerðar- og skriftarsýnishornum og öðrum verkefnum sem gaman er að eiga. Einnig gera börnin sjálfsmynd í upphafi og lok skólaárs sem fer í möppuna.
Þegar nemendur hætta í skólanum fá þeir möppuna afhenta á útskriftarhátíð 7. bekkjar.