Við erum öll í sama liði
Í Vesturbæjarskóla er lögð áhersla á gott samstarf á milli heimilis og skóla og eru foreldrar hvattir til að vera í reglulegum samskiptum við kennara. Samstarf heimila og skóla stuðlar að betri skólamenningu og aukinni farsæld nemenda. Þegar litið er til niðurstaðna rannsókna á áhrifum foreldra á nám og líðan barna þeirra í skólanum kemur í ljós að enginn einn einstakur þáttur hefur eins mikil áhrif á námsárangur og líðan nemenda (Desforges, 2002). Áherslurnar á samstarfið eru augljósar í lögum um grunnskóla og Aðalnámskrá grunnskóla en þar er litið á foreldra sem samstarfsmenn um hvert einstakt barn, nemendahópinn og skólann sem heild.
Samstarf heimila og skóla
Markmiðið með foreldrasamstarfi er að tryggja hagsmuni barna með upplýsingamiðlun og samráði foreldra og skóla. Barn öðlast aukið öryggi við að finna gagnkvæmt traust og virðingu milli hinna fullorðnu sem og samræmi í gildum og væntingum heima fyrir og í skólanum. ,,Öll í sama liði“ er samstarfsverkefni heimila og skóla með það að markmiði að efla hlut foreldra í velferð barna sinna í skólanum og skapa þeim vettvang í daglegu starfi skólans. Ýmis verkefni eru unnin í samvinnu við heimilin eins og heimaverkefni fjölskyldunnar, morgunkaffi, samráðsfundir, námskynningar, samsöngur, menntabúðir fyrir foreldra og vikupóstar frá kennurum.
Skólaráð
Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans.

Foreldrafélag Vesturbæjarskóla
Í Vesturbæjarskóla er starfandi öflugt foreldrafélag og er unnið að því að öll sem að skólastarfinu koma myndi saman öflugt skólasamfélag. Foreldrafélagið kemur að ýmsum hefðum skólans, t.d. skólahlaupi, jólaföndri og vorhátíð. Stjórn foreldrafélagsins er jafnan kosin á aðalfundi þess í upphafi skólaársins. Stjórn foreldrafélagsins sér meðal annars um að velja fulltrúa í skólaráð. Heimili og skóli hafa gefið út handbækur fyrir fulltrúa foreldra á öllum skólastigum. Í þeim er lýst starfi foreldrafélaga og foreldra- og skólaráða.